Ertu á leið á ,,þjóðlagaþing"? Persónukjör, forsetinn o.fl.

Þjóðlagaþing. Einn félagi minn í vinnunni hjá Hafnarfjarðarbæ spyr mig reglulega um ,,þjóðlagaþingið" og hvað ég standi fyrir? Hvort ég fari ekki bara með bassann minn og spili á þjóðlagaþinginu? Þetta er reyndar grínari góður en mjög hugsandi og klár maður. Enda ef hann væri það ekki væri hann varla í núverandi starfi sínu.

Þjóðlagaþing. Þótt orðið geti átt við allt annað en lagasetningu er samt hægt að segja að stjórnarskráin séu ,,þjóðlög" okkar. Grunnlög þjóðarinnar. 

Síðast fjallaði ég um lög á mannamáli fyrir almenning á Íslandi og að í stjórnarskránni væri hægt að setja skilyrði um slíkt. Einnig að í hverjum lögum væri gerð grein fyrir tilgangi og markmiði þeirra.

Og fyrir hvað stend ég, þegar kemur að stjórnarskránni og breytingum á henni? Ég hef ákveðnar skoðanir á ýmsum atriðum í því sambandi, en alls ekki tæmandi enn sem komið er. Fjölmennur þjóðfundur hefur nú komið saman og unnið góða hugmyndavinnu varðandi stjórnarskrána. Stjórnlaganefndin mun taka saman þær upplýsingar og eftir atvikum að auki leggja til efni frá sjálfri sér. Þetta er efniviður sem lagður verður fyrir stjórnlagaþingið. Nái ég kjöri á þingið mun ég skoða fram komnar hugmyndir með opnum en gagnrýnum huga, hlusta á og taka þátt í rökræðum annarra þingmanna og mynda mér trausta skoðun varðandi einstök atriði. Og samræmi þarf að vera innbyrðis, þannig að eitt tekur mið af öðru. Ég held að það sé ekki endilega gott veganesti að vera með fyrirfram mótaðar skoðanir á öllum atriðum, fyrir slíka vinnu. 

Persónukjör. Ég get þó sagt hér og nú að í stað núverandi kosningafyrirkomulags til Alþingis vil ég persónukjör, ég hef saknað þess um nokkurt skeið. Til dæmis þannig að flokkar gætu áfram boðið fram lista, og/eða einstaklingar boðið sig fram sjálfstætt. Og kjósandinn gæti merkt við þá frambjóðendur sem hann vildi sjá á Alþingi, væntanlega með hækkandi númeringu, hvar sem þeir stæðu í flokki eða sem óháðir / sjálfstæðir frambjóðendur. Ég fer ekki hér út í nánari útfærslu tæknilegra framkvæmdaatriða.

Þjóðaratkvæðagreiðslur? Já. En vek samt athygli á þróun í tæknimöguleikum og ábyggilega mætti fara milliveg í þessu sambandi, með þróuðum og víðtækum viðhorfskönnunum eða jafnvel kosningum sem framkvæmdar væru rafrænt í gegnum til dæmis einkabankakerfi (lykilorðastýrðan aðgang), eða að ríkið legði kjósendum til annars konar rafræna lykla eða aðgengi að rafrænum kosningakerfum. Hver þjóðaratkvæðagreiðsla er þung í vöfum og kostar mikla fjármuni og við eigum að hugsa um hagkvæmar en skilvirkar lausnir. Í nóg annað er hægt að nota tímann og fjármunina. 

Forsetinn. Viltu hafa forsetann áfram?, er spurt - eða: Hvað með forsetann? Svarið er já, ég hef ekki séð sannfærandi rök fyrir því að við höfum ekki forseta á Íslandi. En ég spyrð þá samt; hvað með þátt forsetans í stjórnarskránni? 2. kaflinn fjallar meira og minna um forsetann, hlutverk hans, verkefni og samspil hans við löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið. Þetta er allt frá 3. til 29. greinar. Fara þarf yfir þennan kafla og endurhugsa að talsverðu leyti texta, lýsingar og hugsun sem þar kemur fram.
Eftir mikla og dýra aðgerð, eins og þjóðfundur og síðan 2. til 4. mánaða stjórnlagþing með tugum manna í vinnu svo sannarlega er, og samþykkt nýrrar/breyttrar stjórnarskrár, tel ég alveg ljóst að við þurfum þaðan í frá að fara eftir orðanna hljóðan í stjórnarskránni. Og það á líka við um ákvæði hennar um forsetann. Það þarf því að endurskoða og eftir þörfum að endurskrifa greinarnar um forsetann í samræmi við vilja þingmannanna um hlutverk og verkefni forsetans frá og með samþykkt breyttrar stjórnarskrár. Eftir samþykkt nýrrar stjórnarskrár ætti sem sat ekki lengur að tala um ,,hefðir eða venjur, þrátt fyrir ákvæði og orð stjórnarskrárinnar", því þaðan í frá ætti að fylgja ákvæðum stjórnarskrár eins og þau hljóða. Og meðal annars þetta verður verkefni þingsins - að ákveða hlutverk og þátt forsetans í stjórnkerfi okkar allra.

Óaðgengileg stjórnarskrá. Stjórnarskráin er ekki aðgengileg til að finna fljótt það sem fólk veit eða telur vera í henni. Henni er skipt í sjö kafla með rómverskum tölum. Enginn þeirra ber heiti. Greinarnar eru alls um 80, númeraðar, en án heitis. Mín reynsla í textagerð og skipulagi efnis, til dæmis greinargerða, laga og fleira, er að um leið og reynt er að setja inn lýsandi millifyrirsagnir (kaflaheiti / greinaheiti), þá skapast strax tækifæri til að sjá hvaða einstök efnisatriði eiga heima þar undir og hvað ekki. Þá skapast tækifæri til tilfærslna og rökréttari efnisröðunar, kafla og greina, til dæmis í tíma- eða atvikaröð. Við slíka vinnu má líka oft sjá hvað kann að vanta, að hluta eða algerlega.
Ég hef mjög mikla reynslu af textagerð, svo sem lögreglu- og yfirheyrsluskýrslum, flóknum og lögfræðilegum bréfaskriftum, umsögnum til Alþingis um lagafrumvörp, samræmingu og ritstýringu greinargerða fjárhagsáætlana og fleira má telja. En ég er einnig virkur hugmyndamaður, ekki síst þegar ég er í samstarfi við áhugasamt fólk sem vill ná árangri í því sem það tekur sér fyrir hendur. 

Ég er í framboði til stjórnlagaþings - auðkennisnúmerið mitt er 5295.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband