Lög á skiljanlegu máli, mannvirðing og fleira

Staðreynd er að sum gildandi íslensk lög eru ekki skiljanleg almenningi og það er óásættanlegt. Hér getur stjórnarskráin komin inn og sett viðmið um form og framsetningu laga.

Í vinnu undanfarna mánuði með Hagsmunasamtökum heimilanna (HH) hef ég tekið nokkurn þátt í að yfirfara lagafrumvörp frá Alþingi og veita umsagnir um þau. Þetta er gert að ósk Alþingis, sem beinir óskum um þetta meðal annars til HH, sem skapað hafa sér verðskuldaðan trúverðugleika á tæplega tveggja ára starfstíma sínum.

Þar á meðal var frumvarp um breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Sannast sagna féllust manni nánast hendur í skaut við þetta verkefni. Fram kom að vegna gerðar frumvarpsins, sem meðal annars var gert og lagt fram að ósk Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (???) var kallaðir til ráðgjafar ,,hópur reyndra innheimtulögfræðinga" ef ég man orðalagið nokkurn veginn rétt. Ég er alveg ágætlega vanur að lesa og vinna í fjölbreyttum lögum, tryggingaskilmálum og öðru slíku efni, sem fólki finnst iðulega enginn skemmtilestur. En, við skoðun á þessu frumvarpi og einnig gildandi lögum sem því var ætlað að breyta, varð ég, þokkalega ,,lagalæs" maðurinn, að lesa ítrekað einstakar setningar, til að ná að skilja textann, skilja meininguna.

Þetta gengur einfaldlega ekki, með íslensk lög, sérstaklega þau sem snerta almenning. Og það gera gjaldþrotalög svo sannarlega í dag, því miður.

Það er sjálfsögð krafa að lög í lýðveldinu Íslandi á árinu 2010 séu skiljanleg leikmönnum. Að fólk þurfi ekki að kalla eftir dýrri sérfræðiaðstoð lögfræðinga til að átta sig á réttindum sínum og skyldum, möguleikum og takmörkunum. Nóg er samt lagt á fólk í dag, meðal annars í baráttu við sérfræðinga innan fjármálakerfisins, fólk sem margt er orðið brotið fjárhagslega og andlega.

Svo er það mannvirðingin. Kannski er skiljanlegt að þeim sem eiga kröfur eða innheimta kröfur fyrir aðra sé hætt við að líta niður á þá sem skulda og ekki geta greitt á umsömdum tíma. Og kannski er jafnframt skiljanlegt að lög séu orðuð eins og raun ber vitni, ef ,,reyndir innheimtulögmenn" stýra orðalaginu og fulltrúar neytenda hafa lítið um þetta að segja. Hér er dæmi um lagatexta:
,,Lánardrottinn getur krafist að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta ef skuldarinn hefur strokið af landi brott eða fer annars huldu höfði og ætla má að það sé sökum skulda, enda megi telja að hætta sé á að dráttur á gjaldþrotaskiptum geti bakað lánardrottninum tjón."
Lánardrottinn. Drottinn sem lánar, eða hvað? Það er ekki sagt ,,kröfuhafi". Og þá er það skuldari, ekki lántaki, lántakandi eða greiðandi. Það er merkilegt að þeir sem í auglýsingum fjármálastofnana hétu almennt viðskiptavinir fyrir ekki svo löngu, séu nú ,,skuldarar". Mætti þá ekki með réttu breyta nafni hinna og kalla þá ,,rukkara", væri það ekki alveg í stíl. Og orðalagi ,,strokið" af landi brott. Og já.

Lög um gjaldþrotaskipti og fleira eru 194 greinar. Ef þau eru prentuð út, telja þau 39 blaðsíður í A4 stærð. Þetta eru í raun óþolandi smáatriðaupptalningar, hárnákvæmt svona eða hins veginn, enda verið að breyta til að fínstilla af hlutina, kannski eitthvað sem ,,innheimtulögmennirnir reyndu" hafa rekist á að ekki gekk upp í réttarhöldum og telja að setja þurfi undir lekann. Ég tek fram að þetta er kannski neikvætt fram sett og það er raunverulega ekki í mínum stíl, því ég er í eðli mínu jákvæður maður. En ég þoli illa óréttlæti og allt of flókna texta.

Ég hef starfað við að ,,greina og skjalfesta verkferli", - að greina og setja niður á blað hver gerir hvað þegar tiltekin þjónusta er framkvæmd eða verk unnið. Gott að gera slíkt til dæmis í flæðiriti (mynd), sem sýnir einstaka verkþætti í tímaröð og ábyrgðarmenn þeirra. Það væri virkilega hægt að spara ótrúlega mikinn texta í þessum lögum með slíkum skýringamyndum, en það er líklega nokkuð róttæk hugmynd fyrir löggjafarvaldið. Frestum frekari umræðu um það.

Öll lög, ættu í upphafi sínu að innihalda tilgang og markmið, hverju lögunum væri ætlað að ná fram, hver væri ,,andi laganna". Með þessum einfalda og sjálfsagða hætti væri hægt að einfalda og stytta lög verulega. Í þeim þyrfti að auki að setja fram skilgreiningar, meginreglur og önnur helstu atriði og svo stoppa. - Ekki fara út í endalaus smáatriði, því það er auðvitað ill framkvæmanlegt að tilgreina öll möguleg og ómöguleg afbrigði mannlegrar hegðunar og aðstæðna í lögum. Þar sem upp á vantaði, væri horft til tilgangs, markmiðs og anda laganna.

Það er ekkert um svona í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands í dag. Ég tel að í henni, grunnlögum landsins, eigi ákvæði um ofangreint fullt erindi. Stjórnarskráin myndi sem sagt tilgreina að öll íslensk lög og reglugerðir ættu að vera í samræmi við stjórnarskrána, þau væru á skýru og vönduðu leikmannamáli og innihéldu tilgang og markmið þannig að í vafatilvikum væri hægt að miða við anda laganna. Einnig að lögin tryggðu jafna virðingu málsaðila.

Þetta er nóg í bili.

Ath. Ljósmyndin í haus síðunnar, er af íbúðarhúsinu á Bjargi í Miðfirði, tekin að áliðnum heyskap. Lengst til hægri sér í toppinn á Grettistaki, steini miklum nokkru fyrir ofan bæinn. Steinn sá er margir tugir tonna, liggur klofinn í tvennt á klöpp, einni af mörgum sem standa upp úr jörð á Bjargi og sem sagðar eru sorfnar af skriðjökli á ísöld fyrir þúsundum ára. Nafnið Bjarg, er engin tilviljun á þessum bæ, nóg er af grjótinu, sem Grettir hinn sterki hefur getað fengist við fyrir eitt þúsund árum og við heimilisfólkið höfum einnig þurft að tína upp úr nýræktarstykkjum og rífa sífellt upp úr túnunum góðu á seinni árum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband