Styttist í kosningu til stjórnlagaþings
23.11.2010 | 22:20
Nú styttist í laugardaginn 27. nóvember 2010 - kosningadag til stjórnlagaþings.
Sannast sagna hef ég ekki haft mikinn tíma í framboðsvinnu. Vikan er ótrúlega pökkuð um þessar mundir. Fyrir utan daglegu vinnuna sem gæðastjóri Hafnarfjarðarbæjar, er talsverð vinna beint og óbeint vegna Hagsmunasamtaka heimilanna, þar sem ég er ritari. Í gegnum Hagsmunasamtökin er ég nú hluti af nefnd á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, skipaðri af ráðherra, eftir tilnefningum þingflokka og tveggja ráðuneyta. Hreyfingin hefur oftar en einu sinni boðið Hagsmunasamtökunum að taka sæti sitt í slíkum nefndum. Nefndinni er meðal annars ætlað að skoða forsendur verðtryggingarinnar og setja fram tillögur um að draga úr vægi hennar án þess að það ógni fjármálalegum stöðugleika. Nefndinni er ætlað að skila af sér fyrir áramót, en hóf störf nokkuð seint þannig að spurning er hvort það tekst. Einnig skiptir máli hvort nefndin túlkar verkefnið þröngt (bara verðtrygging) eða víðar (tillögur um nýtt húsnæðislánakerfi). Fjórði fundur í nefndinni var kl. 17-20 í kvöld, gestir fundarins voru frá ASÍ og svo fulltrúar lífeyrissjóðanna. Já takk fyrir, ekki mjög hlyntir afnámi verðtryggingar, né tillögugerð í því sambandi.
Í lok hádegisins í dag gekk ég í nokkur fyrirtæki í miðbæ Hafnarfarðar, spjallaði við fólk og dreifði einhverju af nafnspjöldum.
Á sunnudagsmorgun fór ég í Útvarpshúsið við Ofanleiti, þar sem tekin voru viðtöl við frambjóðendur, í hópum í þremur upptökuherbergjum í einu. Hámark fimm mínútur á hvern. Það var vel staðið að þessu af hálfu Útvarpsins, fagmenn þar. Nú eru þessi viðtöl í spilun á Rás 1 og komin inn á vef Útvarpsins - en ekki augljóst hvernig fólk nálgast í gegnum vefsíðuna. Hér er hins vegar tengill svæðið :
http://www.ruv.is/stjornlagathing/frambjodendur (svo þarf að velja viðkomandi einstakling, auðvitað mig - grín).
Í gærkvöldi var ég á fundi í mínu góða félagi og þar fengum við lögfræðing, konu sem er sérfróð um stjórnarskrána, sem bæði uppfræddi og lét fundarmenn hugsa og tjá sig um hvað þarf að vera í góðri stjórnarskrá. Samkvæmt lögfræðingnum þarf þrjá grundvallarþætti í fullnægjandi stjórnarskrá:
1. Ramma um stjórnskipulag okkar - hver á að gera hvað, hlutverk og annað varðandi þá sem fara með einstaka þætti ríkisvaldsins og skil og skörun þeirra.
2. Mannréttindi - sem hægt er að nálgast og/eða setja fram með fleiri en einum hætti.
3. Hvernig stjórnarskrá er breytt - hvað þarf til.
Ég kom inn á sérstöðu mína, um nýjan þátt í stjórnarskrá, að í henni verði skilyrði um lagasetningu. Öll lög innihaldi tilgang og markmið, síðan meginreglur en ekki farið út í ítrustu smáatriði. Þannig leggi lögin greinilega upp hverju þeim er ætlað að ná fram, andi laganna sé skýr. Og auk þess að lögin séu á mannamáli - þau séu læsileg og skýr, fólk þurfi ekki aðstoð til að skilja lög sem snerta almenning, eins og staðreynd er í okkar lýðveldi á árinu 2010. Lögfræðingurinn tók undir að þarna væru nokkur skilyrði í einum pakka, góð og markviss atriði. Markmið - tilgangur - meginreglur og læsileiki. Og stjórnarskráin er réttur vettvangur fyrir þetta, því hún er grunnlög okkar og eðlilegt að hún setji skilyrði um lagasetningu, almenn grunnatriði laganna.
Og nú ætla ég að stoppa og senda nokkra tölvupósta til að minna á framboð mitt. Og kannski smella auglýsingu inn á mbl.is - sem er ókeypis fyrir mig sem áskrifanda blaðsins.
Ég heiti Arinbjörn Sigurgeirsson, er frá Bjargi - í framboði til Stjórnlagaþings - nr. 5295
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.