Framboð til stjórnlagaþings og uppsetning bloggsíðu

Ég hef áhuga á að vinna að yfirferð stjórnarskrár og sem bestum nauðsynlegum breytingum á henni. Ég bauð mig því fram til setu á stjórnlagaþingi. Í framboðsvinnunni hét ég mér því að setja helst engan pening í framboðið, enda verið að leita eftir fulltrúum almennings. Ég ákvað að ég þyrfti þess í stað að setja upp vefmiðil og ákvað að gera það að minnsta kosti hér, þar sem þetta er aðgengilegt frísvæði, sem til dæmis félagi minn í Hagsmunasamtökum heimilanna, Marinó G. Njálsson, hefur notað lengi og mikið. Þannig að ég stofnaði síðuna, til að tryggja mér vefslóð, sem ég gæti svo tilgreint í kynningarefninu.

Og núna er ég sem sagt að vinna í stillingum og uppsetningu á þessari síðu. Orðið alveg tímabært, þar sem búið er að birta lista frambjóðenda, sem inniheldur nöfn, auðkennisnúmer, starfsheiti og sveitarfélög 523 frambjóðenda. (Auðkennisnúmerið mitt er 5295, ekki gleyma því.) Listinn inniheldur þó ekki vefslóðir, enn sem komið er. Meirihluti frambjóðenda er karlmenn og minnihluti kvenmenn. Flestir frambjóðenda búa í Reykjavík, þar á meðal ég, en ég á rætur á landsbyggðinni, Bjargi í Miðfirði, sem eru söguslóðir Grettissögu. Ég er stoltur af því og kenni mig iðulega við Bjarg.

Ég á einnig skyldmenni í Kanada, sem við hjónin hittum einmitt í sumar, í ferð með Karlakórnum Lóuþrælum úr Húnaþingi vestra, á Íslendingadögunum í Norður Dakóta í Bandaríkjunum og Gimli við Winnipegvatnið stóra í Kanada. Það var mikil upplifun, mikið ævintýri. Ættingjarnir eru afkomendur afabróður míns sem ég heiti í höfuðið á, Arinbjörns Sigurgeirssonar Bardal (eftir Bárðardal), sem ungur flutti vestur undir lok nítjándu aldar. Hann gerðist þar umsvifamikill, rak leiguvagnaþjónustu (flottir hestvagnar), opnaði útfararstofu sem enn er í rekstri og átti miklar húseignir í Winnipeg. Yngsta dóttir hans, Agnes, er enn á lífi, 89 ára og eldhress, ekur sínum bíl um Winnipeg og nágrenni eins og herforingi og ætlar að koma til Íslands með Margréti dóttur sinni og fleirum næsta sumar, á 90 ára afmælisárinu sínu.

En, nú er ég sem sagt að undirbúa nánari kynningargrundvöll fyrir framboðið góða, allt er þetta nokkur vinna og tímafrek, en lærdómur í leiðinni. Þannig er það í þessu lífi, svo lengi lærir sem lifir, maður má aldrei hætta að læra, því þá er maður tæplega lengur lif...

Þetta var nú fyrsta tilraunin með eigin bloggfærslu. Ég finn mig vel í þessu frjálsa formi, liprara að skrifa og birta strax, frekar en að bíða eftir birtingu í dagblöðum, sem ég hef líka gert, hver veit hvað út úr þessu öllu kann að þróast, hvernig sem framboðsmálin og kosningarnar þróast. Það er að minnsta kosti gaman að vera búinn (langt kominn) að setja upp þennan rit- og skoðanavettvang.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Sigurgeirsson

Bara að prófa athugasemdirnar líka. Marinó myndi til dæmis segja, að ég væri með allt of mikið af kommum og aukasetningum. Það á ábyggilega við textann hér að ofan.

Arinbjörn Sigurgeirsson, 30.10.2010 kl. 02:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband