Færsluflokkur: Bloggar
Styttist í kosningu til stjórnlagaþings
23.11.2010 | 22:20
Nú styttist í laugardaginn 27. nóvember 2010 - kosningadag til stjórnlagaþings.
Sannast sagna hef ég ekki haft mikinn tíma í framboðsvinnu. Vikan er ótrúlega pökkuð um þessar mundir. Fyrir utan daglegu vinnuna sem gæðastjóri Hafnarfjarðarbæjar, er talsverð vinna beint og óbeint vegna Hagsmunasamtaka heimilanna, þar sem ég er ritari. Í gegnum Hagsmunasamtökin er ég nú hluti af nefnd á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, skipaðri af ráðherra, eftir tilnefningum þingflokka og tveggja ráðuneyta. Hreyfingin hefur oftar en einu sinni boðið Hagsmunasamtökunum að taka sæti sitt í slíkum nefndum. Nefndinni er meðal annars ætlað að skoða forsendur verðtryggingarinnar og setja fram tillögur um að draga úr vægi hennar án þess að það ógni fjármálalegum stöðugleika. Nefndinni er ætlað að skila af sér fyrir áramót, en hóf störf nokkuð seint þannig að spurning er hvort það tekst. Einnig skiptir máli hvort nefndin túlkar verkefnið þröngt (bara verðtrygging) eða víðar (tillögur um nýtt húsnæðislánakerfi). Fjórði fundur í nefndinni var kl. 17-20 í kvöld, gestir fundarins voru frá ASÍ og svo fulltrúar lífeyrissjóðanna. Já takk fyrir, ekki mjög hlyntir afnámi verðtryggingar, né tillögugerð í því sambandi.
Í lok hádegisins í dag gekk ég í nokkur fyrirtæki í miðbæ Hafnarfarðar, spjallaði við fólk og dreifði einhverju af nafnspjöldum.
Á sunnudagsmorgun fór ég í Útvarpshúsið við Ofanleiti, þar sem tekin voru viðtöl við frambjóðendur, í hópum í þremur upptökuherbergjum í einu. Hámark fimm mínútur á hvern. Það var vel staðið að þessu af hálfu Útvarpsins, fagmenn þar. Nú eru þessi viðtöl í spilun á Rás 1 og komin inn á vef Útvarpsins - en ekki augljóst hvernig fólk nálgast í gegnum vefsíðuna. Hér er hins vegar tengill svæðið :
http://www.ruv.is/stjornlagathing/frambjodendur (svo þarf að velja viðkomandi einstakling, auðvitað mig - grín).
Í gærkvöldi var ég á fundi í mínu góða félagi og þar fengum við lögfræðing, konu sem er sérfróð um stjórnarskrána, sem bæði uppfræddi og lét fundarmenn hugsa og tjá sig um hvað þarf að vera í góðri stjórnarskrá. Samkvæmt lögfræðingnum þarf þrjá grundvallarþætti í fullnægjandi stjórnarskrá:
1. Ramma um stjórnskipulag okkar - hver á að gera hvað, hlutverk og annað varðandi þá sem fara með einstaka þætti ríkisvaldsins og skil og skörun þeirra.
2. Mannréttindi - sem hægt er að nálgast og/eða setja fram með fleiri en einum hætti.
3. Hvernig stjórnarskrá er breytt - hvað þarf til.
Ég kom inn á sérstöðu mína, um nýjan þátt í stjórnarskrá, að í henni verði skilyrði um lagasetningu. Öll lög innihaldi tilgang og markmið, síðan meginreglur en ekki farið út í ítrustu smáatriði. Þannig leggi lögin greinilega upp hverju þeim er ætlað að ná fram, andi laganna sé skýr. Og auk þess að lögin séu á mannamáli - þau séu læsileg og skýr, fólk þurfi ekki aðstoð til að skilja lög sem snerta almenning, eins og staðreynd er í okkar lýðveldi á árinu 2010. Lögfræðingurinn tók undir að þarna væru nokkur skilyrði í einum pakka, góð og markviss atriði. Markmið - tilgangur - meginreglur og læsileiki. Og stjórnarskráin er réttur vettvangur fyrir þetta, því hún er grunnlög okkar og eðlilegt að hún setji skilyrði um lagasetningu, almenn grunnatriði laganna.
Og nú ætla ég að stoppa og senda nokkra tölvupósta til að minna á framboð mitt. Og kannski smella auglýsingu inn á mbl.is - sem er ókeypis fyrir mig sem áskrifanda blaðsins.
Ég heiti Arinbjörn Sigurgeirsson, er frá Bjargi - í framboði til Stjórnlagaþings - nr. 5295
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ertu á leið á ,,þjóðlagaþing"? Persónukjör, forsetinn o.fl.
9.11.2010 | 23:58
Þjóðlagaþing. Einn félagi minn í vinnunni hjá Hafnarfjarðarbæ spyr mig reglulega um ,,þjóðlagaþingið" og hvað ég standi fyrir? Hvort ég fari ekki bara með bassann minn og spili á þjóðlagaþinginu? Þetta er reyndar grínari góður en mjög hugsandi og klár maður. Enda ef hann væri það ekki væri hann varla í núverandi starfi sínu.
Þjóðlagaþing. Þótt orðið geti átt við allt annað en lagasetningu er samt hægt að segja að stjórnarskráin séu ,,þjóðlög" okkar. Grunnlög þjóðarinnar.
Síðast fjallaði ég um lög á mannamáli fyrir almenning á Íslandi og að í stjórnarskránni væri hægt að setja skilyrði um slíkt. Einnig að í hverjum lögum væri gerð grein fyrir tilgangi og markmiði þeirra.
Og fyrir hvað stend ég, þegar kemur að stjórnarskránni og breytingum á henni? Ég hef ákveðnar skoðanir á ýmsum atriðum í því sambandi, en alls ekki tæmandi enn sem komið er. Fjölmennur þjóðfundur hefur nú komið saman og unnið góða hugmyndavinnu varðandi stjórnarskrána. Stjórnlaganefndin mun taka saman þær upplýsingar og eftir atvikum að auki leggja til efni frá sjálfri sér. Þetta er efniviður sem lagður verður fyrir stjórnlagaþingið. Nái ég kjöri á þingið mun ég skoða fram komnar hugmyndir með opnum en gagnrýnum huga, hlusta á og taka þátt í rökræðum annarra þingmanna og mynda mér trausta skoðun varðandi einstök atriði. Og samræmi þarf að vera innbyrðis, þannig að eitt tekur mið af öðru. Ég held að það sé ekki endilega gott veganesti að vera með fyrirfram mótaðar skoðanir á öllum atriðum, fyrir slíka vinnu.
Persónukjör. Ég get þó sagt hér og nú að í stað núverandi kosningafyrirkomulags til Alþingis vil ég persónukjör, ég hef saknað þess um nokkurt skeið. Til dæmis þannig að flokkar gætu áfram boðið fram lista, og/eða einstaklingar boðið sig fram sjálfstætt. Og kjósandinn gæti merkt við þá frambjóðendur sem hann vildi sjá á Alþingi, væntanlega með hækkandi númeringu, hvar sem þeir stæðu í flokki eða sem óháðir / sjálfstæðir frambjóðendur. Ég fer ekki hér út í nánari útfærslu tæknilegra framkvæmdaatriða.
Þjóðaratkvæðagreiðslur? Já. En vek samt athygli á þróun í tæknimöguleikum og ábyggilega mætti fara milliveg í þessu sambandi, með þróuðum og víðtækum viðhorfskönnunum eða jafnvel kosningum sem framkvæmdar væru rafrænt í gegnum til dæmis einkabankakerfi (lykilorðastýrðan aðgang), eða að ríkið legði kjósendum til annars konar rafræna lykla eða aðgengi að rafrænum kosningakerfum. Hver þjóðaratkvæðagreiðsla er þung í vöfum og kostar mikla fjármuni og við eigum að hugsa um hagkvæmar en skilvirkar lausnir. Í nóg annað er hægt að nota tímann og fjármunina.
Forsetinn. Viltu hafa forsetann áfram?, er spurt - eða: Hvað með forsetann? Svarið er já, ég hef ekki séð sannfærandi rök fyrir því að við höfum ekki forseta á Íslandi. En ég spyrð þá samt; hvað með þátt forsetans í stjórnarskránni? 2. kaflinn fjallar meira og minna um forsetann, hlutverk hans, verkefni og samspil hans við löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið. Þetta er allt frá 3. til 29. greinar. Fara þarf yfir þennan kafla og endurhugsa að talsverðu leyti texta, lýsingar og hugsun sem þar kemur fram.
Eftir mikla og dýra aðgerð, eins og þjóðfundur og síðan 2. til 4. mánaða stjórnlagþing með tugum manna í vinnu svo sannarlega er, og samþykkt nýrrar/breyttrar stjórnarskrár, tel ég alveg ljóst að við þurfum þaðan í frá að fara eftir orðanna hljóðan í stjórnarskránni. Og það á líka við um ákvæði hennar um forsetann. Það þarf því að endurskoða og eftir þörfum að endurskrifa greinarnar um forsetann í samræmi við vilja þingmannanna um hlutverk og verkefni forsetans frá og með samþykkt breyttrar stjórnarskrár. Eftir samþykkt nýrrar stjórnarskrár ætti sem sat ekki lengur að tala um ,,hefðir eða venjur, þrátt fyrir ákvæði og orð stjórnarskrárinnar", því þaðan í frá ætti að fylgja ákvæðum stjórnarskrár eins og þau hljóða. Og meðal annars þetta verður verkefni þingsins - að ákveða hlutverk og þátt forsetans í stjórnkerfi okkar allra.
Óaðgengileg stjórnarskrá. Stjórnarskráin er ekki aðgengileg til að finna fljótt það sem fólk veit eða telur vera í henni. Henni er skipt í sjö kafla með rómverskum tölum. Enginn þeirra ber heiti. Greinarnar eru alls um 80, númeraðar, en án heitis. Mín reynsla í textagerð og skipulagi efnis, til dæmis greinargerða, laga og fleira, er að um leið og reynt er að setja inn lýsandi millifyrirsagnir (kaflaheiti / greinaheiti), þá skapast strax tækifæri til að sjá hvaða einstök efnisatriði eiga heima þar undir og hvað ekki. Þá skapast tækifæri til tilfærslna og rökréttari efnisröðunar, kafla og greina, til dæmis í tíma- eða atvikaröð. Við slíka vinnu má líka oft sjá hvað kann að vanta, að hluta eða algerlega.
Ég hef mjög mikla reynslu af textagerð, svo sem lögreglu- og yfirheyrsluskýrslum, flóknum og lögfræðilegum bréfaskriftum, umsögnum til Alþingis um lagafrumvörp, samræmingu og ritstýringu greinargerða fjárhagsáætlana og fleira má telja. En ég er einnig virkur hugmyndamaður, ekki síst þegar ég er í samstarfi við áhugasamt fólk sem vill ná árangri í því sem það tekur sér fyrir hendur.
Ég er í framboði til stjórnlagaþings - auðkennisnúmerið mitt er 5295.
Bloggar | Breytt 10.11.2010 kl. 00:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lög á skiljanlegu máli, mannvirðing og fleira
4.11.2010 | 01:25
Staðreynd er að sum gildandi íslensk lög eru ekki skiljanleg almenningi og það er óásættanlegt. Hér getur stjórnarskráin komin inn og sett viðmið um form og framsetningu laga.
Í vinnu undanfarna mánuði með Hagsmunasamtökum heimilanna (HH) hef ég tekið nokkurn þátt í að yfirfara lagafrumvörp frá Alþingi og veita umsagnir um þau. Þetta er gert að ósk Alþingis, sem beinir óskum um þetta meðal annars til HH, sem skapað hafa sér verðskuldaðan trúverðugleika á tæplega tveggja ára starfstíma sínum.
Þar á meðal var frumvarp um breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Sannast sagna féllust manni nánast hendur í skaut við þetta verkefni. Fram kom að vegna gerðar frumvarpsins, sem meðal annars var gert og lagt fram að ósk Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (???) var kallaðir til ráðgjafar ,,hópur reyndra innheimtulögfræðinga" ef ég man orðalagið nokkurn veginn rétt. Ég er alveg ágætlega vanur að lesa og vinna í fjölbreyttum lögum, tryggingaskilmálum og öðru slíku efni, sem fólki finnst iðulega enginn skemmtilestur. En, við skoðun á þessu frumvarpi og einnig gildandi lögum sem því var ætlað að breyta, varð ég, þokkalega ,,lagalæs" maðurinn, að lesa ítrekað einstakar setningar, til að ná að skilja textann, skilja meininguna.
Þetta gengur einfaldlega ekki, með íslensk lög, sérstaklega þau sem snerta almenning. Og það gera gjaldþrotalög svo sannarlega í dag, því miður.
Það er sjálfsögð krafa að lög í lýðveldinu Íslandi á árinu 2010 séu skiljanleg leikmönnum. Að fólk þurfi ekki að kalla eftir dýrri sérfræðiaðstoð lögfræðinga til að átta sig á réttindum sínum og skyldum, möguleikum og takmörkunum. Nóg er samt lagt á fólk í dag, meðal annars í baráttu við sérfræðinga innan fjármálakerfisins, fólk sem margt er orðið brotið fjárhagslega og andlega.
Svo er það mannvirðingin. Kannski er skiljanlegt að þeim sem eiga kröfur eða innheimta kröfur fyrir aðra sé hætt við að líta niður á þá sem skulda og ekki geta greitt á umsömdum tíma. Og kannski er jafnframt skiljanlegt að lög séu orðuð eins og raun ber vitni, ef ,,reyndir innheimtulögmenn" stýra orðalaginu og fulltrúar neytenda hafa lítið um þetta að segja. Hér er dæmi um lagatexta:
,,Lánardrottinn getur krafist að bú skuldarans verði tekið til gjaldþrotaskipta ef skuldarinn hefur strokið af landi brott eða fer annars huldu höfði og ætla má að það sé sökum skulda, enda megi telja að hætta sé á að dráttur á gjaldþrotaskiptum geti bakað lánardrottninum tjón."
Lánardrottinn. Drottinn sem lánar, eða hvað? Það er ekki sagt ,,kröfuhafi". Og þá er það skuldari, ekki lántaki, lántakandi eða greiðandi. Það er merkilegt að þeir sem í auglýsingum fjármálastofnana hétu almennt viðskiptavinir fyrir ekki svo löngu, séu nú ,,skuldarar". Mætti þá ekki með réttu breyta nafni hinna og kalla þá ,,rukkara", væri það ekki alveg í stíl. Og orðalagi ,,strokið" af landi brott. Og já.
Lög um gjaldþrotaskipti og fleira eru 194 greinar. Ef þau eru prentuð út, telja þau 39 blaðsíður í A4 stærð. Þetta eru í raun óþolandi smáatriðaupptalningar, hárnákvæmt svona eða hins veginn, enda verið að breyta til að fínstilla af hlutina, kannski eitthvað sem ,,innheimtulögmennirnir reyndu" hafa rekist á að ekki gekk upp í réttarhöldum og telja að setja þurfi undir lekann. Ég tek fram að þetta er kannski neikvætt fram sett og það er raunverulega ekki í mínum stíl, því ég er í eðli mínu jákvæður maður. En ég þoli illa óréttlæti og allt of flókna texta.
Ég hef starfað við að ,,greina og skjalfesta verkferli", - að greina og setja niður á blað hver gerir hvað þegar tiltekin þjónusta er framkvæmd eða verk unnið. Gott að gera slíkt til dæmis í flæðiriti (mynd), sem sýnir einstaka verkþætti í tímaröð og ábyrgðarmenn þeirra. Það væri virkilega hægt að spara ótrúlega mikinn texta í þessum lögum með slíkum skýringamyndum, en það er líklega nokkuð róttæk hugmynd fyrir löggjafarvaldið. Frestum frekari umræðu um það.
Öll lög, ættu í upphafi sínu að innihalda tilgang og markmið, hverju lögunum væri ætlað að ná fram, hver væri ,,andi laganna". Með þessum einfalda og sjálfsagða hætti væri hægt að einfalda og stytta lög verulega. Í þeim þyrfti að auki að setja fram skilgreiningar, meginreglur og önnur helstu atriði og svo stoppa. - Ekki fara út í endalaus smáatriði, því það er auðvitað ill framkvæmanlegt að tilgreina öll möguleg og ómöguleg afbrigði mannlegrar hegðunar og aðstæðna í lögum. Þar sem upp á vantaði, væri horft til tilgangs, markmiðs og anda laganna.
Það er ekkert um svona í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands í dag. Ég tel að í henni, grunnlögum landsins, eigi ákvæði um ofangreint fullt erindi. Stjórnarskráin myndi sem sagt tilgreina að öll íslensk lög og reglugerðir ættu að vera í samræmi við stjórnarskrána, þau væru á skýru og vönduðu leikmannamáli og innihéldu tilgang og markmið þannig að í vafatilvikum væri hægt að miða við anda laganna. Einnig að lögin tryggðu jafna virðingu málsaðila.
Þetta er nóg í bili.
Ath. Ljósmyndin í haus síðunnar, er af íbúðarhúsinu á Bjargi í Miðfirði, tekin að áliðnum heyskap. Lengst til hægri sér í toppinn á Grettistaki, steini miklum nokkru fyrir ofan bæinn. Steinn sá er margir tugir tonna, liggur klofinn í tvennt á klöpp, einni af mörgum sem standa upp úr jörð á Bjargi og sem sagðar eru sorfnar af skriðjökli á ísöld fyrir þúsundum ára. Nafnið Bjarg, er engin tilviljun á þessum bæ, nóg er af grjótinu, sem Grettir hinn sterki hefur getað fengist við fyrir eitt þúsund árum og við heimilisfólkið höfum einnig þurft að tína upp úr nýræktarstykkjum og rífa sífellt upp úr túnunum góðu á seinni árum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Framboð til stjórnlagaþings og uppsetning bloggsíðu
30.10.2010 | 02:24
Ég hef áhuga á að vinna að yfirferð stjórnarskrár og sem bestum nauðsynlegum breytingum á henni. Ég bauð mig því fram til setu á stjórnlagaþingi. Í framboðsvinnunni hét ég mér því að setja helst engan pening í framboðið, enda verið að leita eftir fulltrúum almennings. Ég ákvað að ég þyrfti þess í stað að setja upp vefmiðil og ákvað að gera það að minnsta kosti hér, þar sem þetta er aðgengilegt frísvæði, sem til dæmis félagi minn í Hagsmunasamtökum heimilanna, Marinó G. Njálsson, hefur notað lengi og mikið. Þannig að ég stofnaði síðuna, til að tryggja mér vefslóð, sem ég gæti svo tilgreint í kynningarefninu.
Og núna er ég sem sagt að vinna í stillingum og uppsetningu á þessari síðu. Orðið alveg tímabært, þar sem búið er að birta lista frambjóðenda, sem inniheldur nöfn, auðkennisnúmer, starfsheiti og sveitarfélög 523 frambjóðenda. (Auðkennisnúmerið mitt er 5295, ekki gleyma því.) Listinn inniheldur þó ekki vefslóðir, enn sem komið er. Meirihluti frambjóðenda er karlmenn og minnihluti kvenmenn. Flestir frambjóðenda búa í Reykjavík, þar á meðal ég, en ég á rætur á landsbyggðinni, Bjargi í Miðfirði, sem eru söguslóðir Grettissögu. Ég er stoltur af því og kenni mig iðulega við Bjarg.
Ég á einnig skyldmenni í Kanada, sem við hjónin hittum einmitt í sumar, í ferð með Karlakórnum Lóuþrælum úr Húnaþingi vestra, á Íslendingadögunum í Norður Dakóta í Bandaríkjunum og Gimli við Winnipegvatnið stóra í Kanada. Það var mikil upplifun, mikið ævintýri. Ættingjarnir eru afkomendur afabróður míns sem ég heiti í höfuðið á, Arinbjörns Sigurgeirssonar Bardal (eftir Bárðardal), sem ungur flutti vestur undir lok nítjándu aldar. Hann gerðist þar umsvifamikill, rak leiguvagnaþjónustu (flottir hestvagnar), opnaði útfararstofu sem enn er í rekstri og átti miklar húseignir í Winnipeg. Yngsta dóttir hans, Agnes, er enn á lífi, 89 ára og eldhress, ekur sínum bíl um Winnipeg og nágrenni eins og herforingi og ætlar að koma til Íslands með Margréti dóttur sinni og fleirum næsta sumar, á 90 ára afmælisárinu sínu.
En, nú er ég sem sagt að undirbúa nánari kynningargrundvöll fyrir framboðið góða, allt er þetta nokkur vinna og tímafrek, en lærdómur í leiðinni. Þannig er það í þessu lífi, svo lengi lærir sem lifir, maður má aldrei hætta að læra, því þá er maður tæplega lengur lif...
Þetta var nú fyrsta tilraunin með eigin bloggfærslu. Ég finn mig vel í þessu frjálsa formi, liprara að skrifa og birta strax, frekar en að bíða eftir birtingu í dagblöðum, sem ég hef líka gert, hver veit hvað út úr þessu öllu kann að þróast, hvernig sem framboðsmálin og kosningarnar þróast. Það er að minnsta kosti gaman að vera búinn (langt kominn) að setja upp þennan rit- og skoðanavettvang.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)